Ég er rúmlega fertug, er gift og á fjögur dásamleg börn sem eru líf mitt og yndi. Ég hef æft íþróttir alveg frá því að ég man eftir mér en ég byrjaði að æfa frjálsar íþróttir 6 ára en þegar ég var 16 ára gömul þá hætti ég í frjálsum og færði mig yfir í þolfimina hjá Magnúsi Scheving í Aerobic Sport og fann mig algjörlega. Ég byrjaði að kenna hóptíma 18 ára og hef ekki stoppað síðan.
Ég fór í Kennaraháskóla Íslands þar sem ég útskrifaðist sem kennari með íþróttir sem sérsvið árið 2000 en var að kenna sem hóptímakennari í Aerobic Sport samhliða náminu. Ég fór í þetta nám því ég fann að það heillaði mig mikið að starfa í heilsuræktargeiranum og mig langaði til þess að mennta mig á sviði íþrótta og ekki mikið úrval í boði á Íslandi á þeim tíma. Ég fór eftir útskrift að vinna á Planet Pulse og starfaði þar þangað til ég færði mig yfir í Hreyfingu árið 2002 þar sem ég hóf störf sem deildarstjóri hóptíma og hef gert síðan auk þess að kenna sjálf hóptíma og lokuð námskeið.

Síðustu ár hef ég gengið með þessa hugmynd í maganum að opna mína eigin vefsíðu því mér fannst mikil vöntun á góðri þjálfun á vefnum fyrir íslenskar konur. Á síðunni minni býð ég upp á árangursríka heimaþjálfun fyrir konur sem hægt er að gera hvar sem er. Kosturinn við æfingarnar sem ég býð upp á er sá að að ég fylgi þér í gegnum hverja einustu æfingu frá upphafi til enda sem er ótrúlega hvetjandi, auk þess gef ég valkosti í öllum æfingum sem eru mjög krefjandi sem auðveldar þér að fylgja mér á þínum forsendum.
Við eigum aðeins einn líkama og það er ótrúlega mikilvægt að hugsa vel um hann. Hreyfing ætti að vera hluti af lífi allra sem hafa tök á því að hreyfa sig og langar mig að hjálpa konum að koma hreyfingu og hollari venjum inn í sinn lífstíl á sem þægilegastan máta.