Pizza með mexíkósku ívafi

Á hverjum föstudegi er pizzakvöld á mínu heimili. Við elskum öll pizzur og leikum okkur með allskonar útfærslur. Þessi pizza er í miklu uppáhaldi en hún er með mexíkósku ívafi og æðislegt að setja fullt af fersku grænmeti og lárperu ofan á hana rétt áður en hún er borin fram. 

Fyrir: 2

Undirbúningur: 20 mínútur

 

Innihald:

Pizzadeig

Smá ólífuolía

Gróft sjávarsalt

1 kjúklingabringa

1 tsk karrí

2 tsk Herbamare jurtasalt

1 msk sýrður rjómi

1/2 poki rifinn Mozzarella ostur

Grænmeti (spínat, paprika, tómatur, gúrka)

1 lárpera

 

Aðferð:

Penslið pizzabotninn með smá ólífuolíu og dreifið örlítið af grófu sjávarsalti yfir. Skerið bringuna í litla bita, steikið og setjið 1 msk af sýrðum rjóma á pönnuna þegar bringan er tilbúin og kryddið með karrí og Herbamare jurtasalti. Dreifið bringunni yfir pizzuna og stráið rifnum Mozzarella osti yfir og bakið í ofni í ca. 10 mínútur. Meðan pizzan er að bakast þá er gott að skera niður grænmetið sem borið er fram með pizzunni eða dreift yfir hana áður en hún er borin fram. Njótið!