Lax með bökuðu grænmeti

Lax er próteinríkur, hollur og góður, stútfullur af ómega 3 - fitusýrum og D-vítamíni. Þessi uppskrift er mjög einföld sem mér finnst skipta máli því ég hef ekki alltaf endalausan tíma til þess að elda. Best er að kaupa góðan lax í fiskbúð, annaðhvort í góðri marineringu eða bara hreinan og baka gott grænmeti með í ofni og úr verður holl og æðislega góð máltíð. Um að gera að leika sér með uppskriftina og prófa sig áfram með meðlætið.

Fyrir: 4-6

Undirbúningur: 15 mínútur

Innihald:

Lax úr fiskbúð í góðri marineringu (ca. 200g á mann)

2 stórar sætar kartöflur

1 poki gulrætur

2 rauðar paprikur

2 búnt af brokkolí

Góð jómfrúar ólífuolía

Salt & pipar

 

Aðferð:

Leggið grænmetið á ofnplötu og bakið í ofni (180°) í ca. 25-30 mínútur (gott að skera paprikuna í stóra bita). Skerið sætu kartöflurnar í grófa bita og sjóðið. Þegar grænmetið er búið að vera í ofni í u.þ.b 15 mínútur þá er gott að setja fiskinn í ofninn og baka hann í 12-15 mínútur.  Þegar kartöflurnar eru tilbúnar þá hellið þið vatninu af, stappið þær og kryddið með salti og pipar (má setja 1 msk smjör). Grænmetið er því næst tekið úr ofni, góðri jómfrúar ólífuolíu hellt yfir og kryddað með salti og pipar. Laxinn tekinn úr ofni og öllu raðað fallega á disk. Njótið vel!

 

LoadingFavorite